Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 398/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 398/2023

Föstudaginn 17. nóvember 2023

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 21. ágúst 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmiráðs B frá 8. ágúst 2023 vegna umgengni kæranda við son hennar, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi er móðir drengsins og fer ein með forsjá hans.

Drengurinn var tekinn úr umsjá kæranda þann 7. febrúar 2023 og vistaður á E, vistheimili barna. Frá 27. apríl 2023 hefur drengurinn verið í tímabundnu fóstri á fósturheimili. Þann 19. maí 2023 kvað Héraðsdómur B upp úrskurð um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis til 14. apríl 2024 og var sá úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans af Landsrétti með úrskurði 21. júní 2023. Drengurinn er vistaður utan heimilis á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

Mál drengsins vegna umgengni við kæranda á tímabili vistunar var tekið fyrir á meðferðarfundi B þann 10. júlí 2023 sem lagði til umgengni yrði 29. júní 2023, 31. júlí 2023, 17. ágúst 2023 og 8. september 2023. Þá væri það mat barnaverndar að nauðsynlegt væri að í umgengni yrði unnið samkvæmt tillögum tengslasérfræðings og að umgengni færi fram undir eftirliti eða í formi tengslaeflandi meðferðar. Þar sem ekki náðist samkomulag við kæranda um umgengni var málið tekið til úrskurðar.

Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„D, skal eiga umgengni við móður sína A, 17. ágúst og 8. september 2023. Fyrirkomulag umgengni verði þannig að tengslasérfræðingur verður með í umgengni til að vinna að tengslum móður og drengsins. Umgengni fari fram með tengslasérfræðingi í F í allt að tvær klukkustundir eða á meðan tengslavinna stendur yfir.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. ágúst 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. ágúst 2023, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst með bréfi, dags. 30. ágúst 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar var hún send lögmanni kæranda til kynningar 5. september 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að ákveðin verði meiri umgengni. Þar sem úrskurður barst mjög seint taki kæran aðeins til umgengni 8. september 2023 sem telst of langur tími án umgengni þangað til einkum með tilliti til þess hve lítil umgengni hafi verið þar sem þetta fyrirkomulag teljist skaðlegt.

Í kæru kemur fram að rök fyrir meiri umgengni séu að svo stopul og stutt umgengni sem gert sé ráð fyrir rjúfi og skaði tengsl móður og barns og valdi barninu vanlíðan og sé því alls ekki fyrir bestu. Úrskurðurinn byggi á röngum upplýsingum um kæranda í gögnum málsins þar sem segir að móðir hafi beitt drenginn ofbeldi sem hún segist aldrei hafa gert og drengurinn segir einnig að móðir hafi ekki beitt sig ofbeldi. Þó að hann hafi sagt það einu sinni við talsmann hafi hann dregið það til baka en faðir drengsins hafi beitt drenginn ofbeldi í umgengni. Einnig segi ranglega í gögnum að kærandi hafi ekki verið til samvinnu en það sé ekki rétt. Hún hafi fallist á að G kæmi á heimilið og hún hafi fallist á að fara á E með drengnum. Þó hún hafi ekki gert það strax þegar það var nefnt þá féllst hún á það fljótlega eftir að það kom til en þá stóð hvorugt úrræðið til boða og virðist kæranda þannig hengt fyrir að samþykkja úrræði ekki þegar í stað. Einnig segir að kærandi hafi ekki viljað undirgangast forsjárhæfismat en það sé ekki satt því hún vildi það og skrifaði undir samþykki fyrir því. Það undirritaða samþykki hafi ekki verið lagt fram af starfsmanni sem hafi haldið því fram að kærandi og lögmaður hennar hefðu ekki fallist á forsjárhæfnismat sem sé langt fjarri sanni. Þá hafi gögn síðan ekki verið send matsmanni fyrr en eftir að kærandi hafði samband við matsmann. Einnig hafi matsmaður hvorki verið látinn vita að hann ætti að framkvæma matið né fengið nokkur gögn. Með þessum hætti hafi öll vinnsla B verið í málinu af þeim starfsmanni sem þá hafi verið með málið og á röngum upplýsingum í gögnum. Frá þeim starfsmanni byggi úrskurðurinn og sé hann því eðlilega rangur og því sé krafist að hann verði felldur úr gildi eða til vara að meiri umgengni verði ákveðin.

III.  Sjónarmið B

B krefst þess að hinn kærði úrskurður frá 8. ágúst 2023 verði staðfestur.

Í greinargerð B kemur fram að málefni drengsins hafi verið til vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum í H og á I áður en vinnsla málsins hófst hjá B. Samfelld vinnsla hafi verið í málinu á grundvelli barnaverndarlaga frá júní 2022 vegna tilkynninga um áhyggjur af aðstæðum drengsins í umsjá foreldra og vegna mikils hegðunarvanda drengsins og ofbeldishegðunar. Drengurinn hafi verið tekinn úr umsjá móður sinnar 7. febrúar 2023 og hafi verið vistaður tímabundið utan heimilis frá þeim tíma, fyrst í stað á vistheimili barna að E, en frá 27. apríl 2023 hafi hann dvalist á fósturheimili utan B.

Mál drengsins hafi fyrst verið lagt fyrir umdæmisráð B þann 7. febrúar 2023 og kveðinn upp úrskurður umdæmisráðs um vistun drengsins utan heimilis í tvo mánuði þann 17. febrúar 2023. Kærandi kærði þann úrskurð til Héraðsdóms B. Með úrskurði Héraðsdóms B frá 15. mars 2023 hafi kröfu kæranda um að úrskurður umdæmisráðs yrði ógiltur verið hafnað. Sú niðurstaða hafi verið staðfest með vísan til forsendna með úrskurði Landsréttar frá 4. apríl 2023. Málið hafi verið lagt fyrir umdæmisráð á ný þann 4. apríl 2023 með tillögum um áframhaldandi vistun utan heimilis kæranda. Úrskurður umdæmisráðs hafi legið fyrir þann 14. apríl 2023 um að drengurinn skyldi vistast utan heimilis í fjóra mánuði sbr. 27. gr. bvl. og var B veitt heimild til að gera kröfu fyrir dómi um að vistun skyldi standa í átta mánuði til viðbótar, sbr. 1. mgr. 28. gr. bvl. Kærandi kærði úrskurð ráðsins og þann 19. maí 2023 hafnaði Héraðsdómur B kröfu kæranda um að úrskurður umdæmisráðs B yrði felldur úr gildi og úrskurðaði um vistun utan heimilis í átta mánuði til viðbótar við þá fjóra mánuði sem úrskurður umdæmisráðs B frá 14. apríl 2023 kvað á um eða til 14. apríl 2024. Kærandi kærði úrskurð Héraðsdóms B til Landsréttar sem staðfesti úrskurð Héraðsdóms B þann 21. júní 2023. Fyrir liggur að drengurinn verður vistaður utan heimilis til 14. apríl 2024.

Á tímabili vistunar hafi verið ljóst að ganga þyrfti frá umgengni milli kæranda og drengsins samhliða því að veita stuðning. Þann 16. júní 2023 hafi borist skýrsla úr tengslamati og í niðurstöðum matsins kom meðal annars fram að drengurinn sé metinn í hættulegum tengslum við móður sína. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafi komið í tengslamatinu hafi það verið mat starfsmanna, sbr. bókun meðferðarfundar dags. 28. júní 2023 þar um, að mikilvægt væri að unnið yrði samkvæmt niðurstöðum og tillögum tengslasérfræðingsins, og að mæðginunum yrði m.a. veittur viðeigandi stuðningur í umgengni. Það hafi verið niðurstaða starfsmanna að í ljósi forsögu málsins væri nauðsynlegt að umgengni færi fram undir eftirliti eða í formi tengslaeflandi meðferðar á meðan unnið væri að því að bæta stöðu drengsins og líðan. Það hefði sýnt sig undanfarið að drengurinn bregst illa við þegar rætt sé við hann um stöðu hans. Starfsmenn hafi því talið mikilvægt að unnið yrði í tengslum kæranda og drengsins í umgengni eins og tengslasérfræðingur hafði lagt til. Í matinu hafi komið fram að drengurinn ætti sterk tengsl við móður en að þau séu óörugg og hættuleg fyrir hann. Tengslasérfræðingur taldi heppilegt að unnið yrði markvisst með tengslin og bauð fram ráðgjöf og húsnæði í F. Jafnframt hafi verið bókað um að í tengslum við umgengni gæti drengurinn hitt sálfræðing sem vinni að sálgæslu hans. Lögðu starfsmenn til að umgengni yrði með þeim hætti að tengslasérfræðingur yrði viðstaddur umgengni þar sem unnið yrði með að efla færni kæranda að lesa í tengslahegðun barnsins og reyna að afstýra óæskilegri hvatvísri tengslahegðun barnsins. Áður en umgengni færi fram myndi drengurinn hitta sálfræðing í F, og að umgengni lokinni myndu mæðgin fara saman í tengslajóga sem væri stýrt af hálfu sérfræðingsins. Umgengni með tengslasérfræðingi yrði skipulögð á um það bil þriggja vikna fresti og með fyrrgreindum hætti dagana 29. júní, 31. júlí, 17. ágúst og 8. september 2023. Að auki myndi kærandi hitta drenginn undir eftirliti í húsnæði B þann 8. júlí 2023 og hefði þá heimild til að taka með sér bróður sinn og nýfætt barn hans eins og hún hafði óskað eftir. Í ljósi þess að kærandi hafði sett það fyrir sig að koma í umgengni vegna eldsneytiskostnaðar hafi jafnframt verið samþykkt að veita henni styrk. Umgengni yrði endurskoðuð á ný í september 2023.

Kærandi samþykkti ekki tillögur starfsmanna og hafi ekki verið reiðubúin að undirrita meðferðaráætlun. Hún kvaðst reiðubúin til samvinnu ef drengurinn kæmi heim eftir fjóra mánuði líkt og umdæmisráð úrskurðaði um. Það hafi verið mat kæranda að svo lítil umgengni líkt og lögð væri til væri mannréttindabrot og brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki drengnum fyrir bestu. Kærandi hafi óskað eftir að fá rúma umgengni við drenginn á tímabili vistunar. Hún hafi óskað eftir umgengni a.m.k. einu sinni í viku og að umgengni færi fram á heimili þeirra og án eftirlits starfsmanna. Þá gerði kærandi kröfu um að umgengni færi að minnsta kosti ekki fram í húsnæði B sem hún taldi vera óhreint og ekki til þess fallið að þau gætu átt gæðastundir.

Mál drengsins vegna umgengni við kæranda hafi verið lagt fyrir umdæmisráð B þann 10. júlí 2023 með tillögum um að umdæmisráð B úrskurði um umgengni drengsins við kæranda dagana 31. júlí, 17. ágúst og 8. september 2023. Fyrirkomulag á umgengni yrði þannig að tengslasérfræðingur yrði með í umgengni til að vinna að tengslum móður og drengsins. Umgengni færi fram með tengslasérfræðingi í F í allt að tvær klukkustundir eða á meðan tengslavinna stæði yfir.

Hinn kærði úrskurður ráðsins lá fyrir þann 8. ágúst 2023 þar sem úrskurðað hafi verið um að drengurinn ætti umgengni við kæranda 17. ágúst og 8. september 2023. Fyrirkomulag á umgengni væri þannig að tengslasérfræðingur yrði með í umgengni til að vinna að tengslum kæranda og drengsins. Umgengni færi fram með tengslasérfræðingi í F í allt að tvær klukkustundir eða á meðan tengslavinna stæði yfir.

í 74. gr. barnaverndarlaga sé að finna reglur um umgengni við barn í fóstri. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem séu því nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Þá segir í 2. mgr. 74. gr. að foreldrar eigi sama rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli m.a. taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara. Taka skuli mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best.

 

Í úrskurði umdæmisráðs frá 8. ágúst 2023 komi m.a. fram:

„Gögn málsins bera með sér að framan af meðferð málsins og fyrstu mánuði vistunar drengsins hafi verið miklir samskiptaerfiðleikar á milli móður og starfsmanna Barnaverndar og að mikið hafi skort á að móðir hafi sýnt vilja til að fara að leiðbeiningum um samskipti við drenginn í umgengni og við þau tækifæri ítrekað sýnt hegðun að honum viðstöddum sem var til þess fallin að valda honum uppnámi og vanlíðan. Jafnframt bera gögn málsins með sér að móður virðist skorta mjög innsýn hvað varðar eigin hegðun og stöðu drengsins og ástæður þess að nauðsynlegt var talið að grípa til þess ráðs að fjarlægja drenginn af heimili þeirra í febrúar sl., en gögnum málsins ber saman um að gríðarleg breyting hafi orðið á líðan og hegðun drengsins eftir aö það var gert. Eitt skýrasta merki þessara breytinga má sjá í upplýsingum frá skóla drengsins, en staða hans þar var orðin þannig að ekki var hægt að hafa drenginn með öðrum börnum í skólanum vegna hegðunarerfiðleika hans og ofbeldishegðunar.

Dagálar um síðustu skipti sem umgengni drengsins og móður hefur farið fram, þ.e. með tengslaráðgjafa á F 1. júní sl. og i húsnæði Barnaverndar undir eftirliti starfsmanna 8. júlí sl., sýna breytingu í jákvæða átt á samstarfsvilja móður og umgengni 8. júlí fór vel fram samkvæmt dagál starfsmanns. Móðir hefur lýst sig viljuga til að þiggja aðstoð samkvæmt tillögum tengslaráðgjafans hvað drenginn varðar en hafnar núverandi tillögu Barnaverndar um tilhögun umgengni.

Umdæmisráðið telur afar brýnt fyrir hagsmuni og velferð drengsins að unnið verði áfram að því að móðir og drengurinn nái aó móta jákvæð og örugg tengsl og samskipti sín á milli. Eins og áður sagði bera gögn málsins með sér að hegðun drengsins og líðan hafi tekið miklum breytingum í jákvæða átt allt frá því að hann var tekinn úr umsjá móður sinnar. Vel hefur gengið með drenginn á fósturheimilinu og í skóla þeim er hann hefur sótt þaðan, en fram kemur i gögnum að breytingar í neikvæða átt á hegðun og líðan hans séu greinilegar þegar hann þarf að tala um atriði er varða móður hans eða ástæður þess að hann er í fóstri og þegar daglegri rútínu er raskað, t.d. við umgengni við móður og heimsóknir og viðtöl í tengslum við barnaverndarmál hans. 1 greinargerð Barnaverndar er vísað til skýrslu frá E, dags. 12. maí sl., þar sem m.a. kemur fram það mat að mikilvægt sé að drengurinn fái tíma til að jafna sig og ná ró í taugakerfi sitt. Umdæmisráðið tekur undir nauðsyn þessa fyrir áframhaldandi bætta líðan og velferð drengsins. Af þessum sökum telur umdæmisráðið nauðsynlegt, vegna hagsmuna drengsins, að varlega sé farið í því að auka umgengni á milli hans og móður og jafnframt brýnt að umgengni fari fram undir eftirliti. Sú vinna sem hafin er með tengslaráðgjafa fór vel af stað og er það mat umdæmisráðsins að tillaga Barnaverndar, sem byggir á tillögum ráðgjafans um áframhald á þeirri vinnu, sé vel til þess fallin að gæta lögvarins réttar drengsins og móður hans til umgengni sín á milli um leið og unnið er að jákvæðri tengslamyndun þeirra. Umdæmisráðið telur nauðsynlegt að reynsla fáist af árangri framangreindrar vinnu áður en umgengni verður aukin eða breyting gerð á fyrirkomulagi hennar, umfram það er tillaga B i máli þessu hljóðar á um. Umgengni með tengslaráðgjafanum er lögð er til fór fram 31. júlí sl. og skulu næstu tvö skipti fara fram með sama hætti dagana 17. ágúst og 8. september næstkomandi. Verður þá hægt að meta aðstæður að nýju og gera nýjar tillögur um umgengni út frá því mati.

Með vísan til alls framangreinds, auk gagna málsins, er það niðurstaða umdæmisráðsins að drengurinn D skuli eiga umgengni við móður sína, A, dagana 17. ágúst og 8. september 2023. Fyrirkomulag á umgengni verði þannig að tengslasérfræðingur verður með í umgengni til að vinna að tengslum móður og drengsins. Umgengni fari fram með tengslasérfræðingi i F í allt að tvær klukkustundir eða á meðan tengslavinna stendur yfir.“

Að mati B sé mikilvægt að umgengni samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 sé ákvörðuð í samræmi við hagsmunir og þarfir drengsins. Það sé jafnframt mat B að hinn kærði úrskurður sé vel rökstuddur og í ljósi framangreinds, allra gagna málsins og með vísan til rökstuðnings hins kærða úrskurðar auk

IV.  Sjónarmið drengsins

Í málinu liggur fyrir skýrsla talmanns, dags. 11. maí 2023, sem m.a. aflaði afstöðu drengsins til umgengni við kæranda. Að sögn drengsins líði honum vel á fósturheimili en samt ekki alveg nógu vel. Varðandi umgengni sagðist drengurinn vilja hitta móður sína einu sinni til tvisvar í viku og stakk hann uppá að hitta hana í Í og hafa umgengni í tvær klukkustundir í senn. Drengurinn sagði allt vera betra ef hann fengi að hitta móður sína.

Í málinu liggur einnig fyrir afrit af dagál vegna viðtals sem sálfræðingur tók við  drenginn 2. júní 2023. Fram kemur að í viðtalinu hafi drengurinn sagt að hann væri bæði reiður og líka dapur ef hann hitti ekki mömmu sína. Þá tók hann fram að það gerði hann glaðan að hitta móður sína.

V.  Niðurstaða

Drengurinn D er X ára gamall. Kærandi fer ein með forsjá hans. Þann 19. maí 2023 kvað Héraðsdómur upp úrskurð um vistun drengsins utan heimilis til 14. apríl 2024.

Með hinum kærða úrskurði frá 8. ágúst 2023 var ákveðið að umgengni drengsins við kæranda skyldi vera 17. ágúst 2023 og 8. september 2023, hjá tengslasérfræðingi í F í tvær klukkustundir í senn eða á meðan tengslavinna stæði yfir.

Kærandi krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að ákveðin verði meiri umgengni.

Varðandi kröfu kæranda um að úrskurðarnefndin kveði á um aukna umgengni bendir úrskurðarnefndin á að samkvæmt 4. mgr. 51. gr. bvl. getur nefndin einungis staðfest úrskurð að niðurstöðu til eða hrundið honum að nokkru eða öllu leyti. Þá getur úrskurðarnefndin einnig vísað máli til meðferðar að nýju. Í þessu felst að úrskurðarnefndin getur ekki breytt hinum kærða úrskurði líkt og kærandi gerir kröfu um til vara.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal við ráðstöfun barns í fóstur taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd umgengninnar.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því fyrst og fremst að líta til hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu er það mat nefndarinnar að það hafi þjónað best hagsmunum drengsins að umgengni hans við kæranda yrði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem drengurinn er í samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er verið að skapa stöðugleika í lífi drengsins þannig að hægt sé að vinna með erfiðleika hans og tengslavanda.

Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að umgengni við kæranda hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja beri til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráðs B er varðar umgengni drengsins við kæranda.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs B frá 8. ágúst 2023 varðandi umgengni A, við D, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum